Íslendingar eru skrítin þjóð!

Fólk er hrætt við breytingar.  Betra að hafa allt í föstum skorðum og sitja áfram á sömu sessunni í stofusófanum og horfa á línulega dagskrá sjónvarpsstöðvanna. Borða sömu sveittu samlokuna í hádegishléi vinnunnar.  Láta lítið á sér bera og gangast undir skoðanakúgun samferðarfólksins þó þú sért á allt öðru máli.

Sorry, ég hlaut ekki þannig uppeldi.  Djúpt í hjarta mér býr sú sannfæring að sala á áfengi eigi að vera frjáls undan einokun ríkisins.  Rétt eins og allar aðrar vörur. Tilgangslaust að reka fingur í framan mig og segja að fullt af sérverslunum séu til staðar.  Þær eru ekki í eigu ríkisins.  Ætla rétt að vona að CostCo muni selja haglabyssur samhliða áfengi í komandi framtíð.

Uppþurrkaðir alkar sem þola ekki að ganga framhjá stæðu af bjór í matvöruverslun eru augljóslega ekki búnir að ná fullum bata.  Að nota fólk sem hefur haft betur gegn Bakkusi sem rök fyrir því að ekki megi selja áfengi annars staðar en í ríkisreknum sérverslunum er móðgun við það góða fólk.  Þeirra bati byggist ekki á aðgengi heldur eigin vilja.

Annars held ég að megin ástæðan fyrir andúð fólks á því að vín séu seld í matvöruverslunum sé sú að það vill ekki að aðrir sem sækja hverfisverslunina sjái hvað og hve mikið þau eru að drekka. Vínbúðir ríkisins eru eins og kirkjur þar sem fólk hleypur inn með höfuðin niður í bringu og forðast að líta framan í nokkurn mann af ótta við að þekkjast.  Og komast oftast upp með að kaupa það sem þeim sýnist án þess að nágranninn reki augun í körfuna. Frábært efni fyrir mannfræðirannsókn einhvers háskólanemans.

Reyndar sé ég ekki af hverju er ekki hægt að reka Vínbúðirnar og sölu í matvöruverslunum samhliða.  Geta þá verið í samkeppni og feimna fólkið haldið áfram að versla hjá ríkinu meðan við hin kaupum veigarnar í CostCo.

Af öllum moðhausunum sem berjast gegn framtíðinni finnst mér þó Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fáranlegasta dæmið.  Foreldrasamtök með ritskoðun væri nærri lagi. Unglingar verða aldrei verndaðir fyrir áfengi með því að banna áfengisauglýsingar í íslenskum miðlum meðan þau sjá þær á netinu og erlendum sjónvarpsrásum. Meiri bjánasamtökin!

Krakkarnir panta búsið sitt á facebook með nokkrum smellum á lyklaborðinu. Þau þurfa ekki lengur að hanga fyrir utan Ríkið og láta kaupa fyrir sig. Veigunum er rúllað til þeirra upp að dyrum. Unga fólkinu gæti ekki verið meira sama um áfengisauglýsingar og ÁTVR.

Hvernig væri að dröslast inn í nútímann gott fólk!  Þið eruð að berjast við vindmyllur. Látum af þessu ríkiseinokunarokri og seljum draslið sem víðast. Afnemum svo þessi andskotans áfengisgjöld. Ríkið græðir alveg nóg með almennum sköttum til að greiða fyrir forvarnar- og meðferðarstarf.

Íslendingar eru skrítin þjóð!

Færðu inn athugasemd