En hvað með börnin?

Skrítnasti málflutningur gegn sérhverju máli er að bera fyrir sig mögulegri velferð barna. Málstaðurinn eða sjónarmiðið er orðið virkilega veikt þegar viðkomandi neyðist til að grípa til barnaspilsins. Þá hefur ekkert annað dugað til og málið er fallið um sjálft sig.  Að mínu mati, auðvitað.

Gott dæmi er hið svokallaða áfengisfrumvarp eins og Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum lýsa afnámi á einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis. Helstu rökin gegn því eru að nú þegar sé nægt aðgengi og að börnin muni liggja í því ef aðgengið verði aukið örlítið meira og þessi skaðræðisvara fái að verma hillur matvöruverslana.

Börnin liggja nú þegar í því útúrreykt og nefsniffuð í herbergjunum sínum milli þess sem þau skríða í tíma í framhaldsskólanum sínum.  Þurfa ekki einu sinni að fara út úr húsi til að fá skammtinn sinn.  Hann berst von bráðar upp að dyrum eftir nokkra smelli í tölvunni eða snjallsímanum með pizzunni.  Geta meira að segja greitt fyrir draslið í gegnum heimabankann, netgíró eða aur ef engir seðlar eru til staðar heima.

Ungmennin eru löngu hætt að hanga fyrir utan Ríkið að biðja miðaldra ístrubelgi eins og mig um að kaupa handa sér vodkapela. Landasalinn og dílerinn búa í einhverju appi í snjallsímanum þeirra.  Í nokkurra fingrasmella fjarlægð.

Einu sinni var mjólkin seld í sérverslunum og mátti ekki sjást í hillum matvöruverslana.  Í dag grípum við mjólk og brauð með okkur þegar við brunum í gegnum hverfisverslunina. Og leiðum varla hugann að því að eitt sinn mátti ekki selja þessar vörur í búðinni okkar.

Þannig verður það einn daginn í nánustu framtíð þegar við grípum með okkur tvær rauðvín og langferðabíl af bjór á eðlilegu verði með steikinni þegar von er á óvæntum gestum frá útlöndum í mat á sunnudagskvöldi.  Og minnumst þess varla að einu sinni seldu sérverslanir á vegum ríkisins þessar veigar á fáranlega háu verði í nafni forvarnarstefnu.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum virðast ekki gera sér grein fyrir að börnin þeirra eru sjálfstæðir einstaklingar sem gera það sem þeim sýnist óháð rörsýn foreldra sinna. Hvernig væri að ræða við unglinginn í stað þess að standa öskrandi á götuhornum í þeirri von að aðrir telji þig fyrirmyndarforeldri.  Ná smá árangri í uppeldinu í stað ímyndar gagnvart öðrum?

Færðu inn athugasemd