Verðlag hér er svo hátt vegna þess að við erum eyja. Verðlag hér er svo hátt vegna þess að vörurnar ferðast hingað svo langan veg. Verðlag hér er svo hátt vegna tolla…eehhh nei. Þeir hafa fallið niður á öllu nema matvöru.
Verðlag hér er svo hátt vegna þess að í árdaga íslenskrar verslunar lærðum við þá list að okra frá dönsku einokunarkaupmönnunum. Síðan þá hefur það verið lenska að ofrukka fyrir vörur og þjónustu á Íslandi. Enda lítil sem engin samkeppni verið utan frá þar til nú að amerískur verslunarrisi opnar vöruhús og eldneytisdælur í Garðabæ.
Opnun Bónus á sínum tíma rauf okurmúr heildsalanna svo þeir neyddust til að semja um skárri kjör fyrir neytendur landsins. Frægt er þegar þeir fóru grátandi til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í kjölfarið til að kvarta undan Jóhannesi í Bónus og frekjunni í honum að heimta sanngjörn verð fyrir magnkaup.
Byrjunin var góð en svo kom bakslag. Olíufélögin þrýstu á stjórnvöld til að koma í veg fyrir opnun bensínstöðva Irving Oil. Samkeppnin á þeim markaði var kæfð í fæðingu. Eflaust hefur hið sama verið reynt þegar CostCo lýsti yfir áhuga á að koma hingað og hefði tekist hefði vinstristjórn verið við völd. Steingrímur Joð hefði aldrei samþykkt ameríska verslunarkeðju. Og Framsókn ekki heldur.
En auðvaldið í Garðabæ hafði sigur og fékk CostCo til sín í Kauptún. Kannski er það helsta afrek Ragnheiðar Elínar fyrrverandi ráðherra. Svei mér þá! Hún má þó eiga það. Að minnsta kosti er ég frekar sáttur þó ég hafi ekki einu sinni heimsótt sjoppuna enn þá.
Heilbrigð samkeppni er góð fyrir okkur neytendur.