Hreyfiseðillinn

Sófakartaflan ég átti orðið í erfiðleikum með að staulast úr strætó og heim.  Þurfti að hvíla mig á 13 mínútu göngu.  Eðlilega fékk ég hreyfiseðil í hausinn.   Þótt fyrr hefði verið.  Ég var að drepast.

Nú hef ég verið að skakklappast kröftulega í 30 mínútur eða lengur þrisvar til fjórum sinnum í viku og finn strax stóran mun og finn að ég á nóg inni. Klukkutíma ganga ætti að vera lágmark hjá mér dag hvern.

Er nú svo komið að ef ég læt of lengi líða milli göngutúra, þá fer líkaminn að kvarta. Hvar endar þessi vitleysa eiginlega?  Hjólreiðar í spandexgalla. Laugavegurinn eftir nokkur ár með Tums bróður?

Fyrstu vikuna eftir ávísun hreyfiseðilsins gerði ég ekki neitt og sat bara á sófanum heima í algjörri afneitun.  Svo fór að rofa til í hausnum á mér.  Verð að líta á þetta sem tækifæri í staðinn fyrir kvöð.  Hætta þessu rugli.  Opna augun.  Sjá að kannski er þetta mitt síðasta tækifæri til að snúa dæminu við.  Það verður bara erfiðara eftir því sem að árin færast yfir.

Hef verið að hlunkast um síðastliðnar sex vikur og finn stóran mun á mér.  Sófinn er að missa sitt aðdráttarafl.  Er í sumarleyfi út júlí og nenni varla lengur að sofa út fram að hádegi eins og í fyrri fríum.  Verð að fara að gera eitthvað um leið og ég vakna.

Hreyfiseðillinn er gott spark í rassinn!  Snýst mikið um eigin samvisku og metnað. Að stíga upp úr sófanum.  Koma sér út.  Hætta að ljúga að sjálfum sér.  Fagna því að geta enn stigið í fæturna og komið sér þannig á milli staða.

Vissulega var mjög erfitt til að byrja með og hausinn minn fullur af efasemdum um árangurinn.  En einhvers staðar varð ég að byrja.  Svo hefur jákvæðnin aukist eftir því sem auðveldara hefur orðið að hreyfa sig og vegalengdirnar hafa lengst.

Aldrei þessu vant hlakka ég til að fara út og hreyfa mig.   Hvað er það!

Færðu inn athugasemd