Eins og margir aðrir miðaldra karlfauskar vakna ég stundum á nóttunni og neyðist til að skreppa á salernið. Það gerðist síðustu nótt rétt fyrir fjögur. Líkt og oft áður nennti ég ekki alveg strax fram úr og hélt í mér smástund meðan ég tékkaði á útvarpinu á náttborðinu.
Þulurinn kynnti fréttir klukkan fjögur. Sem gerist aldrei nema eitthvað mjög sérstakt er í gangi eins og eldgos eða stríð. Annars eru bara fréttatímar klukkan tvö og fimm yfir nóttina á Rás 1 og 2. – Já, ég stilli stundum á gömlu gufuna. Greinilegt merki þess að aldurinn er að færast yfir.
„Ríkisstjórnin er fallin!“ Ég hristi hausinn og dró niður í viðtækinu. Er mig að dreyma. Bubbi tók að hljóma inn í höfði mér: „þessi fallegi dagur“. Vorum við virkilega að losna við enn eina stjórn bófaflokksins. Hægri sinnuðustu stjórn lýðveldisins sem ætlaði sér svo sannarlega ekkert að gera fyrir aldrað, veikt eða ungt fólk heldur bara einkavinavæða allt draslið fyrir Sinnum, Gamma og Heimavelli. Allt félög í eigu innvígðra.
Lífið er ljúft!