Eflaust væri best fyrir landið ef við myndum sem flest kjósa Kötu og félaga. Kjósa yfir okkur aukna velferð en að sama skapi hærri skatta, boð og bönn a la Steingrímur Joð. Af hverju er þessi risaeðla enn í framboði? Vinstri – Grænir er svo ágætur kostur án hans.
Costco hefði aldrei fengið að koma til landsins á hans vakt. Sjálfgræðgisflokkurinn má þó eiga það að hafa leyft erlendu verslunarveldi að nema hér land og lækka verð í kjölfarið. Gera smá sprungu í samtryggingu (einokun og okur) kaupmanna landsins.
Píratar komu að utan með valkost við fjórflokkinn. Nú verða að minnsta kosti átta eða níu framboð í kosningunum 28. október. Upphefðin kemur að utan. Vonandi fá íhaldið og fjósafasistaflokkar Sigga og Simma frí þetta kjörtímabil. Og fasistaflokkur frekjunnar ekkert fylgi. Barátta hennar gegn fátækt er yfirskin fyrir útlendingaandúð innhringjenda Útvarps Sögu.
Hatur á innflytjendum á lítið erindi í íslenska pólítík. Ekki heldur blind ástúð á flóttamönnum sem mun bara þurrka út fylgi flokka sem við hana daðra (Samfylking). Íslendingum er ekki efst í huga örlög þeirra sem hingað flýja undan stríðum og örbirgð utan úr heimi.
Okkur er meira umhugað um eigin velferð. Aldraðra og öryrkja. Heilbrigðiskerfið. Menntamál. Og mest af öllu um húsnæðismál sem eru í þvílíkum ólestri sökum græðgi airbnb og leigufélaga sem hafa eyðilagt leigumarkaðinn. Því ekki hafa allir efni á að kaupa íbúðir á okurverði. Við erum ekki öll með milljón á mánuði í laun.