Smá röfl

Hef ekki krotað á þennan vegg í hartnær tvo mánuði.  Fyrir utan að finnast ég ekki hafa neitt merkilegt að segja, þá hef ég verið hálf andlaus það sem er af þessum vetri.  Fátt sem grípur mig.  Nenni ekki lengur að nöldra yfir spilltum stjórnmálum og fáranlegu samferðarfólki.  Enda tilgangslaust í bananalýðveldi eins og Íslandi.

Hér rífst fólk út af borgarlínu og umskurði drengja í stað alvarlegs húsnæðisskorts og slæmum kjörum þeirra sem minnst mega sín.  Gjörsamlega tilgangslaust röfl.

Borgarlínan fer aldrei á koppinn því hún er allt of dýr og óhentug fyrir fámenna þjóð sem hatar almenningssamgöngur.  Og að mæla með umskurði vegna trúar, hefða eða hreinlætis er fáranlegt.  Forhúð er ekki botnlangi.  Hún er hvorki óþörf eða til vansa fyrir drengi.  Undarleg þessi árátta að vilja eiga við heilugustu hluta ungbarna.  Látið sköpunarverkið vera!

Línur eru farnar að skýrast fyrir borgarstjórnarkosningarnar.  Vigdís Hauksdóttir hefur skotið upp kollinum sem oddviti Miðflokksins.  Hélt að hún væri hætt.  Vinkona flugvallarvina mætt galvösk á völlinn með Simma Dabba og Útvarp Sögu á bak við sig.  Eyþór Arnalds ljósastaurabani hjá íhaldinu.  Nýr meirihluti að myndast?

Skrímsli sem hefur unnið með börnum til tuttugu ára er hnepptur í gæsluvarðhald fyrir misnotkun á skjólstæðingum sínum og ættingjum.  Enginn gerði neitt þótt hafi verið tilkynnt um hann 2002, 2010 og 2013.  Suss!  Segjum engum frá.  Maðurinn er bara svona gerður.  Börnin þurfa bara að passa sig á að setjast ekki í kjöltuna á honum.

Framámaður í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi er tekinn fyrir að dópa unglingspilta og misnota.  Ekkert var gert.  Lögreglan stöðvaði manninn með pilt út úr heiminum en gerði ekkert því hann var orðinn sjálfráða.  Enn einn innmúraður sem fær að stunda sína glæpi óáreittur.  Fær sennilega uppreist æru eftir dóminn með meðmælum frá flokksmönnum.

Þessi hræðsla, aðdáun eða lotning fyrir nauðgurum og barnaníðingum á Íslandi er stórundarleg.  Fólk virðist kóa með þeim í hópum og leyfa að stunda sína viðbjóðslegu iðju undir þagnarskyldi þegar það ætti að króa þá af og berja til óbóta.  Ekki eins og þetta sé kækur en ekki glæpur.

Ásmundur Friðriksson þingmaður hefur sett Íslandsmet ef ekki heimsmet í akstri um kjördæmi sitt á síðasta ári.  Fékk fjórar milljónir og sexhundruð þúsund fyrir.  Tæp fjögur hundruð þúsund á mánuði gegn akstursbók.  Sem ætti að vera auðvelt að bera saman við kílómetramæli jeppans hans.  Reyndar er hægur leikur að breyta mælum ef brotaviljinn er fyrir hendi og einbeittur.  Mæli samt með því að skrifstofa Alþingis skoði mælaborðið á kerrunni hans.  Staðfesti þessa metkeyrslu.  Annars skil ég ekki af hverju þessi maður er á þingi?  Rasisti og karlremba.  Algjör sóun á rými og atkvæðum.

Fólk býr ekki í húsum sem eru í hönnun er alveg rétt hjá verðandi borgarstjóra Eyþóri Arnalds.  Hér vantar 17.000 íbúðir á næstu tveimur árum til að halda í við fólksfjölgun og vinna á uppsöfnuðum vanda.  Þétting byggðar tekur allt of langan tíma.  Allt of lítið er í gangi á höfuðborgarsvæðinu.  Hótel teljast ekki með.  Treysti reyndar hvorki Eyþóri eða Degi yfir götu.  Eru báðir froðusnakkar sem eru allt of ástfangnir af sjálfum sér.

Aðeins meira röfl en ekkert.  Hafði greinilega eitthvað að segja.  Fínt að koma þessu af sér.  Gott fyrir sálina.

Færðu inn athugasemd