Á Íslandi er bara byggt lúxushúsnæði með lyftum og bílakjöllurum niður til helvítis. Rándýr steypa sem fáir hafa efni á að kaupa. Og helst engar stúdíó eða tveggja herbergja íbúðir sem markaðurinn þarfnast svo mjög. Ef slíkar eignir birtast, þá eru þær svo stórar í fermetrum að fáir í leit að fyrstu eign geta keypt þær.
Ofan á allt er að myndast millistétt lágtekjufólks sem hefur rétt svo fallið út fyrir lágmarksviðmið bæjarfélaga til að eiga rétt á félagslegri leiguíbúð. Sama fólk mun ekki fá inni hjá Bjargi félagi, ASÍ og BSRB, sem miðar við sama tekjuviðmið. Fátt vinnandi fólk er með svona lág laun. Væntanleg leiguheimili Íbúðalánasjóðs verða aðeins fyrir fólk með börn. Barnlausir einstaklingar geta étið það sem úti frýs.
Ekkert er í kortunum fyrir einstaklinga sem rétt falla út fyrir tekjumörk og geta ekki heldur leigt eða keypt á almennum markaði. Þeir eiga bara að hýrast í herbergjum í iðnaðarhúsnæðum og deila salerni og eldhúsi með farandverkamönnum frá Austur-Evrópu. Og skammast sín fyrir að hafa ekki fjölgað sér.
Það voru þvílík mistök að leggja niður verkamannabústaðina: „Ætla má að ríflega 13 þúsund íbúðir hafi verið í verkamannabústaðakerfinu þegar það var lagt af og þeim sem þar bjuggu gefin kostur á að kaupa íbúðirnar með láni á markaðskjörum. Þegar í byrjun lenti þorri kaupenda í vanda með greiðslubyrði þessara lána – þrátt fyrir að hafa fengið að eignast verulegan eignarhlut“ – sagði Gylfi Arnbjörnsson í 1. maí ávarpi sínu í fyrra.
Og Gylfi bætti við: „…að ef verkamannabústaðakerfið hefði fengið að þróast áfram í friði fyrir pólitískri þröngsýni hægri aflanna væru um 20 þúsund íbúðir í þessu kerfi í dag og aðstæður bæði tekjulægri fjölskyldna og ungs fólks allt aðrar og betri. Nú er svo komið að ungt fólk sem ekki hefur sterkt fjárhagslegt bakland á litla sem enga möguleika á að hefja búskap. Tekjulágar fjölskyldur þurfa að nota allt að helmingi tekna sinna til að greiða leigu og búa samt við mjög mikið húsnæðisóöryggi.“
Þetta annars fína kerfi var fyrir hægra liðinu sem vill einkavinavæða allt. Leigufélög sem sýna methagnað hafa sprottið upp og maka krókinn á ódýrum eignum frá Íbúðalánasjóði. Íbúðum sem sjóðurinn hafði tekið til sín í kjölfar hrunsins og selt í bunkum til Almenna leigufélagsins og Heimavalla. Þegar hið rétta hefði verið að stofna leigufélag án hagnaðarsjónarmiða. Nokkurs konar verkamannabústaðaleigufélag fyrir tekjulága og þá sem falla á milli skers og báru þegar kemur að tekjuviðmiði bæjarfélaga og væntanlegra leigufélaga verkalýðsfélaga og Íbúðalánasjóðs.
En það má ekki. Garðbæingar verða að græða á daginn og grilla á kvöldin. Húsnæðisleysi og eymd samborgara þeirra kemur þeim ekki við. Einhver þarf að halda uppi lifistandard Engeyinga og annarra innvinklaðra og innmúraðra í flokknum.