Hef verið að reyna að rifja upp hvenær ég hóf að hafa opið fyrir næturvaktina um helgar. Sennilega fyrir fimmtán árum síðan þegar reglulegt djamm um helgar niður í miðbæ datt niður vegna þess að vinir mínir og drykkjufélagar hófu sambúð og byrjuðu að fjölga sér.
Fékk smá saman leið á að vafra einn niður í bæ eins og illa gerður hlutur. Fór frekar að hanga heima á netinu með einn kaldann á kantinum. Hlusta á næturvakt rásar tvö með Guðna Má Henningssyni. Ekki er öllum gefið að tala við einmana sálir næturinnar sem margar hverjar hafa áfengi um hönd. Guðni er þar fremstur meðal jafningja.
En nú er hann að hætta og aðeins ein vakt eftir um næstu helgi. Flytur af landi brott. Fer á eftirlaun. Hvað gerum við vesælar sálir næturinnar? Hver á að vagga okkur í svefn?
Einhver mun vonandi taka við. Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða Hellvar í Unun) hefur stundum leyst Guðna af með góðum árangri. Nærtækast væri að leita til hennar. Hún er gædd sömu gáfu og Guðni.
Vonandi leggst næturvaktin ekki af eins og var planið fyrir nokkrum árum síðan en hætt var við vegna mótmæla hlustenda. Við vesalingarnir þurfum á einhverjum að halda inn í nóttina um helgar. Eyra til að hlýða á óskalög okkar.