Græna mílan

Horfði enn einu sinni á The Green Mile yfir hátíðarnar og grét eins og ungabarn þegar stóri kraftaverkamaðurinn var leiddur í rafmagnsstólinn.

Sitjandi á sófanum meðan titlarnir runnu yfir skjáinn, með grátbólgin augu, þvaglegg og lyfjaður eftir aðgerð, fór ég að hugsa um dauðann. Hvernig sé að mæta honum með svona löngum aðdraganda. Þurfa að sætta sig við að þetta sé búið.

Hve mjög ég hafði kviðið fyrir svæfingunni. Óttast að vakna ekki aftur. Á endanum var ég búinn að tala mig niður á að kannski væri ekkert svo slæmt að sofa áfram. Deyja drottni sínum. Fullt af skemmtilegu fólki sem bíður fyrir handan.

Sáttur við dýr og menn gekk ég inn á Landspítalann við Hringbraut árla morguns í desember. Svo rólegur að sætti undrun. Horfði með aðdáun á eftir tveimur litlum börnum fara á undan mér í aðgerð og brosti til þeirra. Ég var svo miklu hugrakkari sem barn. Brosti einnig hughreystandi til foreldra þeirra sem áttu svo erfitt með að horfa á eftir ungunum sínum.

Lagðist sallarólegur á skurðarborðið. Fékk í mig æðalegg og grímu yfir andlitið. Man lítið eftir það.

Mikið varð ég undrandi að vakna þremur tímum síðar.

Færðu inn athugasemd