Fésbókarvinur heldur því fram að ekkert sé til sem heiti fitufordómar. Fólk sé bara feitt, hvítt, svart, gult og svo framvegis. Og skilur ekkert í því af hverju megi ekki hafa orð á því.
Ekki er ég fituhlunkurinn að banna vini mínum að tjá sig um holdafar annarra eða húðlit þeirra. En hann skal ekki búast við því að við feita og litaða fólkið sitjum bara þegjandi og hljóðalaus hjá meðan hann finnur að aukakílóum okkar eða litarhætti.
Máski var honum aldrei innrætt í æsku að benda ekki á fólk sem fellur ekki að útlitsnorminu. Við getum víst ekki öll verið fullkomin eins og hann.
Ótal ástæður geta skýrt offitu. Margir hafa barist við hana frá barnæsku án árangurs vegna hægra efnaskipta. Aukin hreyfing og bætt mataræði hafa haft lítið að segja. Eitraðar tungur vina og vandamanna særa þessa einstaklinga.
Aðrir hafa bætt á sig á fullorðinsárum eftir flutning úr foreldrahúsum. Efnaskiptin hægt á sér. Hreyfing orðið minni og mataræðið kannski ekki upp á marga fiska eftir að hótel mömmu sleppti.
Hver sem skýringin er þá kemur engum við mín aukakíló, nema kannski lækninum mínum. Fólki leyfist ekki að strjúka á mér kviðinn og spyrja mig hvenær ég eigi von á mér. Ég er ekki einhver annars flokks borgari vegna ístrunnar framan á mér.
En að sama skapi má segja að það er sjaldnast hollt að burðast með aukakíló til lengri tíma. Það kemur vonandi að því að ég nenni þessu ekki lengur og fari á ketó og í crossfit.
En það verður þá á mínum forsendum. Ekki vegna þess að einhverjir góðviljaðir eru að benda mér á betri siði. Slík afskipti forherða mann bara í að halda sukkinu áfram.
En já, auðvitað eru fitufordómar til og grassera í íslensku samfélagi þar sem ekki er nóg að stunda hreyfingu heldur þarf að skara fram úr og birta sem flestar myndir á instagram.
Fyndnast er þó þegar steraðir einkaþjálfarar eru að tjá sig um offitu. Þeir eru sennilega nær hjartaáfalli en fitubollurnar sem þeir eru að gagnrýna.