Mér leiðast raðir. Stend helst ekki í þeim nema af illri nauðsyn. Því eru sjálfafgreiðslukassar matvörubúðanna mínir bestu vinir. Sjaldnast langar raðir í þá…enn þá.
Dröslast vanalega í hádeginu í Bónus fyrir ofan safnið eftir einhverri sveittri Sómaloku. Nenni auðvitað ekki að koma með nesti. Þá er gott að hafa verslun svona nálægt.
Eftir að hafa þrætt sjoppuna í gegnum ótal ferðamenn og fávita, þá rýk ég vanalega á næsta sjálfsafgreiðslukassa. Meika ekki gamalmennaröðina við almenna kassann.
Tel mig vera orðinn nokkuð vel skólaðan í sjálfvirkninni og frábið mér því vanalega aðstoð Rússans sem gefur sig stundum á tal við okkur viðskiptavinina milli þess sem hann andar niður hálsmál unglingsstúlkurnar sem er að reyna afgreiða gamalmennin.
Ljótt að segja frá því en ég þoli þennan gaur engan veginn. Hann hangir á öxlinni á mér eins og ég sé einhver þjófur. Um daginn fór hann að fikta í kassanum meðan ég var að skanna vörurnar. Andskotinn heyrði víst ekki nógu vel pípið og hækkaði hljóðið.
Er að skapi næst að skalla hann en geri það auðvitað ekki því ég leyfi flestum fávitum að vaða yfir mig á skítugum skónum. Ætti kannski að breyta því.