„Vill einhver elska 49 ára gamlan mann?“ söng Egill Ólafsson með Þursaflokknum um árið. Man hvað mér fannst þetta frábær texti á árunum rétt eftir menntaskóla. Svona gaur ætlaði ég aldrei að verða. Nú er ég orðinn 46 ára og er ekki eins hrifinn.
Á hvorki íbúð eða bíl og safna ekki þjóðbúningardúkkum. Og ekki er ég fráskilinn. En ég er að nálgast fimmtugt. Kominn á síðasta söludag. Unglingar hlæja að mér út á götu. Sjáið gamla, feita gaurinn. Ósköp er hann asnalegur!
Get sjálfum mér um kennt. Var með óvirkan fattara þegar þessar fáeinu stúlkur gerðu sér dælt við mig í den. Kveikti ekki á perunni og missti af tækifærum sem hefðu kannski leitt til þess að ég væri ekki án konu og barna í dag. Plús að flestar mínar viðreynslur fuku út í veður og vind.
Ég hafði alltaf einhverja afsökun. Var ekki tilbúinn í samband. Hún höfðaði ekki nógu vel til mín. Var henni ekki samboðinn. Átti hvorki íbúð né bíl. Ekki búinn með námið.
Loks nú með öll mín aukakíló og áunnu kvilla átta ég mig á því að lífið bíður ekki eftir neinum. Þú verður að hoppa út í djúpu laugina og vona það besta. Þýðir ekkert að sitja á ströndinni og bíða eftir næstu öldu.
En eflaust er það orðið of seint fyrir þennan 46 ára gamla mann.