Ár er liðið síðan ég lagðist undir hnífinn með sátt við sjálfan mig að það væri allt í lagi að vakna ekki aftur upp úr svæfingunni. Við Dauðinn vorum dús. Ég hafði átt gott líf og upplifað flest nema kannski að feðra barn. Mér til mikillar undrunar var ég vakinn upp af hjúkrunarkonu nokkrum tímum seinna og boðið dýrindis súpa og brauð.
Síðan þá hef ég óttast talsvert færri hluti!
Félagsfærnin gufaði upp. Ég æði inn í verslunarmiðstöðvar með bros á vör. Geitungar hræða mig ekki. Set ekki lengur net fyrir gluggana heima hjá mér eins og áður. Nálar hræða mig ekki lengur og ég horfi á þegar hjúkrunarfræðingurinn stingur mig í handlegginn. Umferðin er leikur einn og ég svíf á milli annarra bifreiða (afi er þó enn við stýrið). Freki kallinn er orðinn litli kallinn. Ég horfi stíft í augun á honum og nú hörfar hann oftar en ég.
Lífið er allt of stutt. Get ekki lengur setið á hliðarlínunni og beðið eftir því að það komi fyrir mig. Nú verð ég að sækja það heim af krafti. Reyna að klára þessa andskotans ritgerð. Elta líkleg pils. Tæma stöku könnu í góðra vina hópi. Gefa þeim á kjaftinn sem eiga það skilið.