Covid-19

Kannski bara ágætt að þurfa ekki að mæta í vinnu í fyrramálið. Letinginn ég er skráður í frí þessa þrjá vinnudaga fram að páskum. Sjálfskipuð sóttkví, afslöppun og nýting á orlofsdögum.

Er bara virkilega þakklátur að vera ekki kominn með þessa veiru í kroppinn. Þrátt fyrir margar ferðir með strætó fyrstu tvær vikurnar í samkomubanninu og ferðir í matvörubúðir.

Hef passað mig vel og rifjað upp tæknina við að snerta ekki andlitið á mér. Ímynda mér bara að hendurnar séu óhreinar af stálryki eftir vinnu í framleiðslu Marel h/f. Og aukið handþvott og sprittun. Fólk er hætt að hlægja að mér fyrir þessa snyrtimennsku.

Og þegar ég kem inn einhvers staðar þá þvæ ég hendurnar með sápu og vatni…tvisvar. Passa mig á að bera aldrei veiruna heim til mín eða heim til annarra. Bara vonandi að fólk sem þrífur sig ekki eftir salernisferðir fari að bæta ráð sitt. Að það komi út úr þessu öllu.

Viðurkenni fúslega að í fyrstu leist mér ekkert á samkomubannið. Fannst það óþarfa inngrip í líf okkar. Síðan hef ég kveikt á perunni og gengið í takt. Megum ekki láta veiruna leggja heilbrigðiskerfið. Annars deyja fleiri.

Færðu inn athugasemd