Plásturinn rifinn af sárinu

Rýmisgreind Íslendinga er misjöfn. Og við kunnum illa að fara í raðir fyrir utan verslanir. Ég nota sjónmælingarminnið frá því ég starfaði við að saga niður og bora í ryðfrítt stál.

Fimm gangstéttarhellur eru tveir metrar og svo framvegis. Samt er oftar en ekki einhver andandi ofan í hálsmálið á mér. Blaðrandi í símann og frussandi aftan á hálsinn á mér.

Fólk er fífl og við Íslendingar erum extra mikil fífl. Víðir, Þórólfur og Alma boða tilslakanir upp úr næstu mánaðarmótum og skríllinn skundar strax af stað í kjölfarið eins og fíll í postulínsbúð. Allur okkar góði árangur mun gufa upp í sumar með þessu áframhaldi.

Þó er eftirtektarvert að bæði Víðir og Þórólfur eru tregir við að slá af Þjóðhátíð í Eyjum, enda ólust báðir þar upp. Önnur lög og aðrar reglur virðast gilda um Vestmannaeyjar. Sérstaklega yfir verslunarmannahelgina þegar ÍBV þarf að hala inn 70% árstekna sinna.

1.999 manns í átta aðskildum hólfum er ekkert að fara að gerast í Herjólfsdal. Tveggja metra reglan gengur ekki upp í slíkum þrengslum. Allir gestir Þjóðhátíðar þurfa þá að fara í sóttkví eftir helgina.

En svona er þetta bara. Sumarið er dautt. Við munum bara hanga heima hjá okkur fyrir utan stöku göngutúra og verslunarferðir með tveggja metra millibili, hönskum og spritti. Finnst reyndar skjóta svolítið skökku við að ætla að leyfa hárgreiðslu og tannlækningar með allri sinni nánd. Íslenskar sóttvarnir eru misvísandi. Ætla til dæmis að leyfa golf en ekki knattspyrnu. Skólahald grunnskólanema en ekkert sund eða líkamsrækt.

Sjálfur spái ég því að við verðum búin að gefa allar þessar takmarkanir upp á bátinn um leið og örfáir greinast dag eftir dag. Þá mun þjóðin segja í kór „fuck it bara“ og sýna yfirvöldum fingurinn. Gefa skít í mögulegar sektir.

Við verðum einhvern tímann að vera nógu huguð til að taka stökkið. Láta af þessari ofurvarkárni. Rífa plásturinn af sárinu. Getum ekki endalaust sett hausinn undir okkur og vonað það besta. Lífið verður að halda áfram.

Færðu inn athugasemd