Fullur eftirvæntingar, tilhlökkunar og vonar um fyrirtaks brauðpramma með fullt af áleggi fyrir minna verð, brunaði ég á Dalveginn eftir vinnu fyrir tíu dögum til móts við Spaðann.
En nei. Þarna var ekkert nýtt á ferðinni nema eitthvað lægri verðlagning sem vel má mæta og bæta með tilboðum keppinautanna; sérstaklega fyrir fjölskyldufólk.
Bara lélegur dagur á Dominos. Sama sveitta uppskriftin með upphleyptu deigi við jaðarinn. Síst meira af áleggi og aukaosturinn alls ekki til staðar. Brauðstangirnar loftkenndar, bragðlausar og þurrar.
Hef sjaldan orðið fyrir eins miklum vonbrigðum með brauðpramma. Enda sendi ég grátpóst á Spaðann. Var boðið inneign sem sárabætur í kjölfarið en ætla ekki að þiggja þær. Geng ekki í sömu gildruna tvisvar.
Verður víst að hafa í huga að gaurinn á bak við þetta er einn af þeim sem stofnaði Dominos á Íslandi á sínum tíma. Gerði reyndar sæmilega hluti í IKEA en hefur greinilega slegið algjört vindhögg núna. Tapað galdrinum.
Að vísu er maturinn í mötuneyti Garðabæjar hálfgert drasl, en á fínu verði. Kannski er það bara viðskiptahugmyndin og ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Er að kaupa rusl á lægra verði en annars staðar.
Eyðir samt ekki þeirri staðreynd að þegar erlendar keðjur eða eitthvað svipað lendir á okkar ströndum, þá útvatnast það og er gert fokdýrt. Og við eigum bara að gleypa glæpinn hráan án eldunar. Þiggja það í ósmurt rassgatið.
Enn virðist vera við lýði viðskiptasiðferði danskra einokunarkaupmanna fyrri alda um að selja okkur maðkað mjöl. Enginn metnaður, bara græðgi. Rétt eins og einokunin sé enn við lýði. Verðum að læra að fara eitthvert annað þegar sparkað er í punginn á okkur.
Viku síðar fór ég á Pizzuna og fékk mér mánudagstilboð. Þvílíkur munur. Aukaosturinn var heldur betur til staðar ásamt ást og hlýju. Kannski vegna þess að pramminn var ekki gerður af ofdekruðum, íslenskum menntaskólaskríl, heldur fullorðnum einstaklingum frá fjarlægum löndum í leit að betra lífi?