Fyrir viku síðan skrölti ég niður á Dalveg með slatta af dósum í Endurvinnsluna. Frekar rólegt að gera og ég bara nokkuð sáttur með mína þrjá svörtu ruslapoka.
Fór í röðina fyrir utan og valdi mér svo eina af þremur röðum þegar inn var komið. Komst að þeirri lengst til hægri. Ein kona á undan með fáar dósir. Sturtaði úr fyrsta pokanum og ýtti á græna hnappinn.
„Er ekki röð?“ öskraði einhver hipster á Nizzan Zero á mig. Gaur sem hafði verið á undan mér fyrir utan, en valið hægari röð þegar inn var komið. Ég ákvað að gefa mig ekki og reyndi að útskýra fyrir honum reglurnar án árangurs. Að röðin skiptist í þrennt fyrir framan færiböndin þrjú. Hélt um tíma að ég þyrfti að handrota hann fyrir djöfulskapinn.
Starfsmaður gekk á milli okkar og studdi minn málstað. Að röðin skiptist í þrennt þegar inn væri komið. Að þú gætir ekki bara hoppað á milli eftir því hvar losnaði fyrst. Yrðir að halda þig við þína röð. Fékk illt augnaráð.
Af hverju er fólk svona frekt?