Frekar af nauðsyn en hlýðni við samgöngusamning minn við vinnustaðinn, hef ég ferðast með strætó síðustu vikurnar. Pramminn hans pabba er að hruni kominn og á leiðinni upp í Vöku. Bíllaus lífstíll er víst framundan á ný.
Hefur gengið ágætlega og ég ekki séð þörf á grímunotkun fram að því þegar eldri kona hóstaði yfir hnakkann á mér í dag. Þorði ekki að hasta á hana því meðlimur Kveiks sat fyrir framan mig og ég óttaðist að hún myndi gera mig að efni í þættinum.
Mér finnst fólk vera að gleyma sér æ oftar og leyfa sér að ryðjast inn fyrir metrana tvo. Ekki virða persónulegt rými okkar hinna sem viljum alls ekki eða megum alls ekki fá þessa helvítis pest vegna heilsufarsástæðna.