Pabbi

Sá gamli tók upp á því að kveðja þennan heim án þess að láta mig vita fyrir fram. Þegar húsvörður Blindraheimilisins hringdi síðdegis mánudaginn 26. október, þá vissi ég. Hann hafði aldrei hringt áður síðastliðin fimmtán ár.

Einhvern veginn komst ég inn á salerni og brotnaði saman. Grét fyrirfram. Þó svo að pabbi kærði sig ekki um að strákar grétu. Hvað gat hann sagt.

Húsvörðurinn vildi ekki fara einn inn í íbúð pabba og fá kjaftshögg ef kallinn væri hress en nennti ekki að svara. Því fórum við saman þangað inn. Kalt rennandi vatn tók á móti okkur í eldhúskrananum. Allt var óþægilega hljótt og myrkt. Húsvörðurinn skrúfaði fyrir vatnið.

Ég leit í kringum mig. Þarna lá faðir minn berfættur á maganum við rúmið. Með bolinn fyrir ofan hnakkann eins og hann hafi verið að reyna komast úr honum. Þvagpollur lá frá honum. Blóð. Kannski frá fallinu? Svona hafði ég séð hann áður áfengisdauðann í æsku. Ekkert óvænt þannig séð.

Við kölluðum til hans og ég tók um ökla hans. Engin viðbrögð. Hann var kaldur viðkomu. Stjarfur. Húsvörðurinn hringdi í 112. Hófst svo tveggja og hálfstíma ferli.

Indælu lögreglumennirnir tveir, rannsóknarlögreglumaðurinn geðugi, héraðslæknirinn, mennirnir frá útfarartofunni. Allan tímann stóð húsvörðurinn við hlið mér og leyfði mér að bulla um pabba. Á einum tímapunkti fékk ég stóran kökk í hálsinn og missti málið. Fór næstum því að gráta. En það var ekki í boði. Pabbi hefði ekki skrifað upp á slíkt.

Strákar gráta ekki var lífsskoðun pabba. Get tough or die. Þannig var karlfauskurinn bara gerður. Föðurlaust ástandsbarn móður sem eignaðist tvö önnur börn með hermönnum heimsstyrjaldarinnar síðari. Ástlaus drengur á flakki milli barnaheimila og drykkfelldra fósturforeldra hér og þar.

Fann frið um stund hjá einstakri konu í Flekkudal í Kjós. En stálpaður unglingur með brilljántín í hárinu festi ekki rætur og fór á flakk í stað þess að gerast bóndi. Háseti á opnum bát, hitt og þetta starf. Loks í vinnugengi Landssímans við að klára lagningu símalína á Austurlandi.

Á leið að verða símvirki, en klúðraði því með kjafthætti eins og svo oft síðar. Mætti seint og illa þar til verkstjórinn rak hann. Pabbi spurði á móti hvort verkstjórinn hefði aldrei verið ástfanginn, en þá hafði sá gamli verið nýbúinn að kynnast mömmu.

Hvað um það. Framhald síðar.

Færðu inn athugasemd