Gamli kláraði starfsævina um sextugt. Orðinn sjóndapur sökum hrörnun augnbotna og gat ekki lengur unnið nákvæmnisvinnu. Ég fann afrit af bréfi frá síðasta vinnuveitanda hans til Tryggingastofnunar, með þvílíku lofi og eftirsjá að hafa misst þennan listasmið úr þjónustu sinni.
Djöfull hlýtur missir sjónarinnar hafa verið erfitt hlutskipti fyrir föður minn. Ég sá hann alltaf fyrir mér dundandi sér við einhvers konar hönnun og smíðar í ellinni. Hann var með virkilega góðan hönnunarheila. Gat séð fyrir sér lausnir og lokagerð á hlutum.
En það átti ekki fyrir honum að liggja. Í staðinn minnkaði sjónsviðið með hverju árinu uns undir lokin var hann orðinn nær blindur. Afskiptur, gamall maður í myrkrinu með Útvarp Sögu í eyrunum. Varla gott fyrir geðheilsuna.
„Maður venst því að vera afskiptur“, sagði sá gamli við mig í síðasta skipti sem við hittumst. Töluðum saman í síma nokkrum sinnum eftir það. Ég var alltaf á leiðinni til hans en frestaði því alltaf. Vildi ekki ryðjast inn á persónulegt rými hans.
Við feðgar lögðum ekki alveg sama skilning í að vera „afskiptur“. Gamli gat verið eins og snúið roð í hundskjafti. Fann aldei neina sök hjá sér sjálfum. Allt var öllum öðrum um að kenna. Ég var eina systkinið sem hann talaði við síðastliðin ár. Hann var líka hættur að tala við mömmu og skellti á hana ef hún hringdi. Hættur að tala við góðvin sinn Guðna.
Eftir að gamli hætti að drekka fyrir þremur árum, þá fór hann greinilega að hugsa og komst að kolrangri niðurstöðu um að öll hans ógæfa væri öðrum að kenna. Hætti að tala við flesta nema mig. Kannski vegna þess að ég mótmælti honum ekki. Sýndi honum einhvern lágmarks áhuga. Kannski vorkenndi hann örverpinu sínu. Veit það ekki fyrir víst.
Einstök hjón sem reka söluturn í miðbænum reyndust föður mínum sérstaklega vel. Þangað fór hann tvisvar í viku með ferðaþjónustu fatlaðra í leigubíl og fékk sér kaffi og spjall. Fékk hjálp frá þeim við að versla í matinn, sækja lyf og læknisþjónustu. Einhvern veginn fannst föður mínum auðveldara að þiggja aðstoð frá óskyldum heldur en mér sem hann borgaði bíl undir síðastliðin þrjú ár. Ég mátti ekki sjá hann hjálparþurfi.
En hvað um það. Pabbi er jarðsunginn, hlaut bálför og hefur verið jarðsettur í duftreit Kópavogskirkjugarðs. Vildi ekki verða ormafæða.
Ekkert við föður minn var auðvelt.
Hvíl í friði, gamla fól.