Verður svo gaman fyrir núverandi íbúa Hamraborgar, Álfhólsvegar og Digranesvegar að hlusta á niðurrif gömlu bæjarskrifstofunnar/félagsheimilisins, auk tveggja annarra bygginga í eigu bæjarins, sem eru varla mikið eldri en þrjátíu ára. Og allra gömlu, litlu húsanna þar á bak við.
Loks fá íbúarnir að hlýða á sanna sinfóníu þegar gröfurnar fara að höggva fyrir bílakjallara undir allt draslið sem á að koma í staðinn. Skeleton Hill comes alive again.
Og engin verður Borgarlínan, því ekkert pláss er fyrir hana á Borgarholtsbrautinni í gegnum Kársnesið. Og engin brú kemur yfir Fossvoginn á næstunni vegna útboðsklúðurs. Og jafnvel svo verði þá fjölgar farþegum strætó ekki með því að harmonikkuvagn aki aðeins oftar í gegnum eitthvert níðþröngt úthverfanes Kópavogs til og frá í Hamraborg. Síst af öllu þegar hringleiðir Kársness nr. 35 og 36 verða lagðar niður í ferlinu.
Enginn af þessum himnakastölum mun rísa! Nema í þokukenndum þverhausunum sem leggja þá til í von um ofurgróða og frekari vegtyllur. Misspilltir stjórnmálamenn og konur eiga ekki að koma nálægt skipulagsmálum. Íbúar, óháðir arkitektar og skipulagsfræðingar eiga að sjá um ómakið. Og alls ekki verktakar!