Fjórða bylgjan

Get svarið það að mér sýndist sjá Svandísi nudda saman höndunum af tilhlökkun yfir að fá að herða tökin aftur og banna okkur eitthvað í kjölfar frétta um einhvern fávita nýkominn frá útlöndum með breska afbrigðið. Aldrei þessu vant er ég sammála krökkunum í Viðreisn og Sjálfstæðis um að auðvelt er að svipta fólk frelsi en mun erfiðara að fá það til baka.

Er ansi hræddur um að Bjórólfur og Djammdís munu fyrst banna þyrstu fólki að heimsækja öldurhús. Bara hlýtur að vera ölvuðu fólki að kenna að veiran er komin aftur á kreik. Svo fá steratröllin á kjaftinn og Bjössi í World Class neyðist til að skella í lás. Leikhús og veitingastaðir fá hinsvegar að hafa opið fyrir efri millistéttina sem kom með þennan bansettan vírus aftur inn til landsins, fór beint á vaktir á Borgarspítalanum og svo að sjá Víking Heiðar í Hörpu. Gott ef eitt stykki fermingarveisla var ekki líka á dagskránni.

Löngu orðið ljóst að yfirvöld með afturhaldskommatitti innanborðs munu seint leyfa íslenskum almenningi um frjálst höfuð strjúka á ný. Til þess er freistingin til að banna og stjórna of sterk. Það verður eins og að draga tönn úr trölli að fá smá tilslakanir. Eða þar til almenningur gefst loks upp, sendir stjórnvöldum löngu töng og losar um höftin á eigin vegum.

Færðu inn athugasemd