Við íslendingar erum spennufíklar upp til hópa. Iður jarðar opnast og halarófan heldur í átt að gosinu í stað þess að hlýða Víði og halda sig heima. Allir verða að fá sjálfu fyrir instagram, facebook og tinder. Drónahjarðir, þyrlur og flugvélar sveima svo yfir lýðnum. Einhver gæti skaðast í svona sirkus en okkur er slétt sama.
Ef einhvers staðar er eldur, þá flykkist Íslendingurinn þangað eins og naut að nývirki. Húsbrunar laða fólk að sér sem fer akandi á milli bæjarhluta til að berja eldinn augum og þvælast fyrir viðbragðsaðilum. Í æsku lærðum við snemma að elta sjúkrabíla, hjóla upp í Fossvog til að sjá þyrluna lenda við spítalann eða hlaupa út í móa til að hjálpa við að „slökkva“ sinubrunan.
„Sjáðu ljósið“ segjum við meðan dinglum ljósi fyrir framan ungabörn. Strax þá hefst þessi leikur að eldinum. Innrætingin um að hlaupa í átt að ljósinu í stað þess að halda sig í myrku örygginu.
Og nú ætlum við að galopna landamærin fyrir erlendum skríl með fölsuð vottorð keypt á netinu fyrir 25 dali. Bara til að fá smá innspýtingu í túrismann. Rútufyrirtækið hans Bjarna Ben. og Bláa lónið. Fjórða bylgjan kemur svo í kjölfarið með takmörkunum og lokunum. Væri ekki nær að bíða aðeins lengur og klára að bólusetja þjóðina að hjarðónæmi!
Umheimurinn verður lokaður í allt sumar. Af hverju í ósköpunum erum við að opna fyrir einhverjum fáeinum hræðum sem segjast vera bólusettir eða með ónæmi? Allt fyrir nokkrar krónur í kassann. Af hverju megum við Íslendingar ekki njóta þess að ferðast nokkuð örugglega um fallega landið okkar án hættu á fjórðu bylgjunni? Djöfull eiga stjórnarflokkarnir eftir að tapa í kosningunum í haust ef faraldurinn fer aftur á flug.