Ef ég lít út um stofugluggann þá blasir við mér gríðarstór og ókláraður húsgrunnur. Verkkaupi sagði fyrri verktaka upp vegna vanefnda. Nýr verktaki er farinn að koma sér fyrir. Rúnta um á skröltandi skurðgröfu. Setja upp lítinn krana og járnabindingaborð. Verð að segja að það er ekki sami völlur á þessum nýja og þeim gamla.
Tækin virðast eldgömul og úr sér gengin. Hjá þeim fyrri glönsuðu nýbónuð, nýsmurð og nýleg tækin. Vinnuskúrarnir glæsilegir með mötuneyti, skápum, salernum og sturtum. Skúrar hins nýja eru hrörlegir og verktakinn frægur kennitöluflakkari sem hefur fram að þessu ekki sinnt aðbúnaði og öryggi starfsmanna sinna sem skyldi.
Skil ekki alveg þessi skipti á verktökum. Bara út af mismunandi túlkun fyrri verktaka og verkkaupa á loforðum og efndum samnings. Og ráða svo mun síðra fyrirtæki til að klára verkið. Get ekki séð að þau glæsilegu hús sem fyrri verktaki hefur klárað séu eitthvað að hruni kominn. Kemur mér ekki á óvart ef verkkaupinn lýsir yfir gjaldþroti áður en árið er liðið. Sjóðir tómir og lánalínur horfnar og þess vegna svona fyrir komið með verkefnið.
Sama gamla sagan og málaferli framundan milli verkkaupa og fyrri verktaka með ásökunum um vanefndir á báða bóga.