Oft hristi ég hausinn yfir því að vera kaupa handónýtar samlokur í hádegismat. Illa smurðar samlokur sem hafa ekkert breyst síðan ég var unglingur. Staðlaðar með lélegu áleggi og sósum á ódýru brauði. Af hverju læt ég bjóða mér svona viðbjóð dag eftir dag? Jú, vegna þess að ég nenni ekki að smyrja eigið nesti.
Lausnin er einföld. Matbúa allt frá grunni. Græja samlokur eftir eigin höfði. Kaupa gott brauð, gæða álegg og ferskt grænmeti. Ekkert dýrara en kostar smá undirbúning og nostur heima við kvöldið áður. Verð bara að nenna því.
Í dag tók ég með mér rónalokur frá kvöldinu áður. Brauð smurt með kjötfarsi og smjörsteikt á pönnu. Margfalt betra en tilbúna draslið úr verslunni nálægt vinnustaðnum.
Mikið vildi ég að það væri mötuneyti eða aðsendir matarbakkar í vinnunni. Víst borin von eftir styttingu vinnuvikunnar.