Ár er liðið og enn erum við að hjakka í sama farinu á byrjunarreit. Til hvers erum við að taka á okkur allar þessar takmarkanir og skerðingar á frelsi til þess eins að þurfa að núllstilla aftur og aftur og aftur? Bara vegna þess að stjórnvöld eru of þrjósk eða duglaus til að loka landamærunum svo veiran sleppi ekki inn aftur og aftur og aftur.
Refsiaðgerðir væri réttara heiti heldur en sóttvarnaraðgerðir. Okkur er refsað sí og æ fyrir syndir einhverra örfárra ferðamanna með fölsuð vottorð og svikin loforð um að virða sóttkví. Hef mætt þó nokkrum túristum á Laugaveginum án grímu og séð þau setja upp hundshaus þegar þess er krafist af þeim við inngöngu í verslanir.
Þegar ég var atvinnulaus, þá hefði ég vel getað hangið hjá systkinum mínum í Danmörku, og látið mömmu eða pabba stimpla mig inn mánaðarlega hjá Vinnumálastofnun á íslenskri IP-tölu og mínu lykilorði. Voru ekkert að fylgjast með hver væri á landinu. Áttu það þó til að boða fólk í viðtal með engum fyrirvara. Slæmt að vera einmitt þá staddur í öðru landi.
Veit ekki hvernig þetta er núna. Sennilega rafræn skilríki inn á „mínar síður“ og staðfest þar að þú sért enn í atvinnuleit. En þá þarf IP-talan alltaf að vera íslensk. Einhver nefndi þó að nú þyrfti fólk að mæta í eigin persónu til að stimpla sig inn. Veit ekki hvað er hæft í því, en þannig var það fyrir svona 30 árum síðan. Fyrir tíma netsins.
En hvað um það. Lokið andskotans landamærunum. Skítt með það þó eitthvert túristagos sé í gangi. Kemur líkamlegri og andlegri heilsu þjóðarinnar ekkert við. Þurfum nauðsynlega að geta ferðast óhindrað um landið okkar í sumar. Hitta fólk og gleðjast. Halda hátíðir og mannamót. Heimurinn verður hvort sem er lokaður í allt sumar. Hingað eru ekki að fara koma neinir hópar af erlendum ferðamönnum nema stjórnvöld ætla áfram að horfa í gegnum fingur sér að með þeim kemur 5. og 6. bylgja faraldursins.