Árum saman var hlegið að mér fyrir að vera alltaf að þvo mér um hendurnar og vera með sprittbrúsa við skrifborðið í vinnunni. En ekki lengur. Ekki eftir Covid-19.
Ef nær öll okkar stunduðum persónulegar sóttvarnir af alvöru, þá væri engin þörf á þessum sóttvarnaraðgerðum. Þá gætum við enn farið í leikhús, líkamsrækt og á bari. Hitt annað fólk. Maður er manns gaman.
En nei, enn finnst mörgum það móðgun að þurfa að þvo sér um hendur eftir salernisferðir. Rökin að viðkomandi hafi ekki pissað á hendurnar á sér. Snýst ekki um það, heldur almennt hreinlæti og dráp á sýklum. Plús að það er ekkert sérstaklega geðslegt að taka í spaðann á einhverjum sem er nýbúinn að gæla við kynfærin á sér og ekki þvo sér á eftir.
Og þessi sífellda árátta fólks að hósta og ræskja sig í hvert sinn sem það mætir annarri manneskju á förnum vegi. Eða skokkararnir og hjólreiðafólkið sem hrækir í áttina að manni um leið og við mætumst. Það er faraldur í gangi. Hvað er að ykkur!
Ótal myndir af vinkonum og vinum saman í hittingum á facebook. Vangi við vanga og tveggja metra reglunni fleygt út í hafsauga. Trúið þið því virkilega að þið getið ekki smitað hvort annað því þið eruð vinir! Þúsundir dag hvern að berja eitthvert aumt gos augum og fá sjálfur fyrir instagram, snapchat og tiktok. Hirða ekkert um sóttvarnir.
Persónulegar sóttvarnir og hreinlæti er það eina sem virkar.