Þjónkun landsmanna við sóttvarnarráðstafanir (refsiaðgerðir fyrir glæpi efri-millistéttar sem svíkur sóttkví) er ótrúleg. Í stað þess að loka landamærunum er mokað hér inn fólki og ætlast til af þeim að halda sóttkví í fimm daga. Að vísu valkvætt að dvelja á sóttvarnarhóteli (fangelsi með engri útivist) eða heima eða á bókuðum gististað, því Alþingi klúðraði lagabálknum upp á bak.
Engin stoð í lögum er að loka fólk inni gegn vilja þeirra í fimm daga í hálf gluggalausu hóteli án útivistarleyfis. Fangelsi mega ekki einu sinni starfa án útisvæðis fyrir vistfólk sitt. Því skyldu sóttvarnarhótel fá að gera slíkt?
Í stað nauðungarvistunar farþega sem koma til landsins, á að stofna sóttvarnarlögreglusveit sem fer heim til fólks til að tékka hvort það haldi ekki örugglega sóttkví. Í hvaða raunveruleika erum við eiginlega komin! 1984 eftir George Orwell. Getið alveg eins sett öklabönd á liðið. Sennilega ódýrara en að halda úti fulltrúasveit til að knýja dyra og vera með nefið ofan í hvers manns koppi.
Allar þessar sóttvarnir virðast vera byrjaðar að snúast upp í æfingar í fasisma. Hvernig á að stjórna lýðnum og láta okkur hlýða. Sársaukaþröskuldi þjóðarinnar var náð með sóttvarnarhóteli. Guð hjálpi yfirvöldum ef þau setja á útgöngubann yfir nætur. Ég myndi að minnsta kosti aldrei hlýða því og rjúka beint út eftir miðnætti. En yrði aldrei handtekinn því hér er sár skortur á lögregluþjónum.
Ár er liðið af leiðindum og ekkert virðist ganga að bólusetja landann. Sífelldar tafir og vonbrigði með bóluefni. Fáum sennilega ekkert ferðasumar innanlands með þessu áframhaldi. Engar bæjarhátíðir, útilegur, verslunarmannahelgi, gleðiganga eða menningarnótt. Megum þakka fyrir að fá að fara undir bert loft til að horfa á sólina, skýin og hafið. Allt annað verður áfram bannað og lokað.
Ekkert sumar verður á meðan haldið er áfram á sömu braut þar sem frú forsætisráðherra „hugnast ekki“ að loka landinu fyrir óþarfa ferðalögum. Brynjar „Trump“ Níelsson varð svo bara að fara til Spánar því mágkona hans fékk heilablóðfall sem hún hefur blessunarlega náð sér sæmilega af miðað við myndbirtingar frá garðpöllum og golfvöllum þar ytra. Á meðan neita aðrir Íslendingar sér um að mæta í útfarir og brúðkaup beggja vegna hafsins. En það er ekki sama Jón og Séra Jón. Sjálfstæðisfólk er undanþegið sóttvörnum og almannavörnum.
Ég meika engan veginn annað ár af þessum leiðindum. Fimmtu, sjöttu, sjöundu bylgju. Smáskammta opnunum og tilslökunum og svo öllu skellt aftur í lás því fólk bara verður að fá að fljúga á milli landa. Fara í sólina til Tenerife. Golf á Spáni. Efri – millistéttin myndi bruna til Flórída ef það væri smuga. Skítt með banvæna veiru sem er á ferli og getur húkkað sér aftur far með þeim heim á Klakann og hleypt öllu í loft á ný því þau vilja ekki ferðast um eigið land í staðinn.
Efri-millistétt hóf þennan dans fyrir ári síðan með veiru í farteskinu frá skíðalöndum Sviss og Austurríkis. Efri-millistétt viðheldur ástandinu með frekju sinni um ferðafrelsi í miðjum heimsfaraldri til sólarlanda meðan almúginn reynir að passa eigin sóttvarnir með vegabréf sín týnd inn í skáp eða ofan í skúffu upp á smá von í hjarta um að fá að ferðast óhindrað innanlands í sumar.