Fyrri sprautan

Þar sem ég er svo mikill sjúklingur, þá var ég boðaður í fyrri sprautu þriðjudaginn 20. apríl kl. 10:10. Og það Pfizer af öllum efnum. Þar sem ég er með svo marga undirliggjandi sjúkdóma. You name it, I got it.

Í Laugardalnum gekk allt eins og svissnesk klukka. Þýskur heragi sveif yfir vötnum. Strikamerki skannað, sæti, stunga, smölun, hvíld, smölun út. Badabing, badaboom. Málið er dautt. Sjáumst eftir þrjár vikur fyrir þá seinni. Strengjakvartett Sinfóníuhljómsveitar Íslands lék undir í biðinni.

Meðan við sátum og biðum eftir að það liði yfir okkur, tók einn sjálfskipaður skemmtikrafturinn sig til og hvatti fólk til að setja X við D. Enginn hló og hann skyldi ekkert. Laugardalshöllin er víst kjörstaður míns hverfis. Prófa hann kannski í haust ef ég nenni. Annars er lýðræðið dautt eftir Covid-19.

Strax eftir stunguna dreif ég varla upp göngustíginn frá Laugardalshöll upp að Suðurlandsbraut. Þurfti að hvíla mig og draga andann. Síðan þá hef ég verið með svefnsýki og í hægagangi. Séð rúmið mitt í hyllingum. Verð vonandi hressari eftir seinni sprautuna.

Færðu inn athugasemd