Svona byrjar það

Strax eftir síðustu örlitlu opnun sprettur upp varðstjóri hjá lögreglunni sem vill ekki fara aftur í sama farið, heldur halda aftur til fortíðar þegar allir staðir lokuðu í síðasta lagi eitt eftir miðnætti.

Svona byrjar það! Frelsið sem við vorum svipt í Covid snýr ekki til baka ef afturhaldsöflin fá að ráða. Veitingastaðir fá ekki aftur að hafa opið fram eftir nóttu því löggan nennir ekki að sinna útköllum þá. Unga fólkið verður bara að gera sér að góðu að djamma með foreldrunum og vinum þeirra á kvöldin, sem svo leita á þau þegar líða fer að miðnætti.

Ef við leyfum þessu að standa verður snúið sér að næsta skotmarki. Fjöldatakmörkunum haldið áfram ótímabundið í 150 hræðum og öllum hátíðum sumarsins slaufað um ókomna framtíð. Verslunum lokað um nætur og helgar. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Netið slökkt um nætur og þröngar síur settar á hvað fólk má skoða og skrifa. Vínbúðirnar opnar milli tvö og sex og aldrei um helgar.

Eftir þennan andskotans faraldur væri nær að fara á hraðferð í frelsisátt. Óheftan opnunartíma veitingastaða, engar takmarkanir á hve margir mega koma saman, leggja niður vínbúðirnar og leyfa frjálsa sölu áfengis í öðrum búðum og á netinu. Hætta að hlusta á ferkantað fólk sem telur sig þess umkomið að leggja okkur hinum lífsreglunar.

Það sem við eigum að uppskera eftir Covid er að stunda betri persónulegar sóttvarnir. Passa okkur betur. Þvo hendur og spritta. Elska meira. Knúsast þéttar. Taka meiri áhættu og kynnast fleira fólki. Gera eitthvað sem okkur hefur lengi dreymt að gera. Og alls ekki að beygja okkur undir kröfur afturhaldsafla sem vilja færa landið okkar aftur til áttunda áratugarins með engu túbusjónvarpi á fimmtudögum, einni útvarpsrás og skífusíma.

Færðu inn athugasemd