Ég taldi mig skilja #metoo2. Hvaðan sú bylgja kom. Hafði rangt fyrir mér. Hún snýst um að frægir karlar hafa fengið allt of lengi að áreita og misnota konur án athugasemda eða afleiðinga. Þá er það eina í stöðunni fyrir þolendur að koma fram undir nafni og segja sína sögu fyrst að kerfið virðist ekki ætla að gera nokkurn skapaðan hlut frekar en fyrri daginn.
Í fyrstu skildi ég ekki alveg þessa útilokunarmenningu. Að hafa bæði mannorð og atvinnu af meintum gerendum í gegnum netið. Að leyfa þeim ekki áður að eiga dag fyrir dómstólum sem skæri úr um sekt eða sýknu. Eitthvað sem þeir þurfa reyndar í fæstum tilvikum að ganga í gegnum. Orð gegn orði og allt það. Karlinn er látinn njóta vafans. Konan hlýtur að vera móðursjúk.
Dómstóll götunnar er eina úrræði þolenda sem stendur. Meðan Héraðsdómar, Landsréttur og Hæstiréttur dæma áfram gerendum í vil.