Loksins þegar við erum að rísa upp úr farsóttarþokunni með æ fleiri bólusetta einstaklinga og nálgumst hjarðónæmi. Og fleiri bandaríska ferðamenn til landsins með vottorð upp á vasann, þá krafsa sig upp á bakkann vofur afturhaldsins sem þrá ekkert frekar en höftin áfram. Enda leið kassalaga fólki ósköp vel þegar allt var lokað og allt var bannað. Lífið var einfalt og gott…fyrir þau.
Kassarnir vilja hafa af veitingafólki leyfi þeirra til að hafa opið fram eftir nóttu um helgar ef þeim sýnist svo og sjá einhvern hag í því. Að slíkt komi í veg fyrir ofbeldi um nætur. Samt liggur maður milli heims og helju eftir síðastliðna nótt eftir hnífsstungu og tveir í viðbót voru barðir í götuna í miðbænum. Jafnvel þó að stöðunum hafi verið lokað ellefu og liðinu sópað út með sorpinu fyrir miðnætti. Skrítið?
Svo ekki sé talað um öll heimateitin sem halda fyrir okkur vöku um helgar vegna styttri opnunartíma. Lögreglan vill þó gera lítið úr þeirri staðreynd einhverra hluta vegna. Hentar þeim ekki. Nenna sennilega ekki að vinna um helgarnætur og kjósa frekar að vera í friði á Hverfisgötunni með kruðerí, kaffi og djúpa sófa. Skoða klám og leggja sig í staðinn fyrir að sinna útköllum og halda friðinn.
Svona byrjar þetta. Spurningin um hvort við viljum hverfa aftur til fyrra horfs eða bara halda höftunum áfram fyrir kassalaga fólkið (sem engum líkar við) og getur ekki unað okkur hinum að eiga möguleika á að djamma fram eftir nóttu um helgar.