Mikið var nú ljúft að fá staðfestingu á því að vera ekki einn um að vera á móti varanlegri styttingu opnunartíma öldurhúsa og skemmtistaða niður í miðbæ. Bæði borgarstjóri og dómsmálaráðherra vilja láta allar skerðingar ganga til baka.
Borgarstjóri vill ekki hverfa 20 ár aftur í tímann þegar allir staðir lokuðu klukkan þrjú og bærinn logaði í slagsmálum fram undir morgun meðan leigubílarnir ferjuðu svefndrukkið fólkið sem var að renna af í úthverfin.
Dómsmálaráðherra finnst fáranlegt að ganga á bak orða sinna um að um tímabundnar skerðingar hefði verið að ræða meðan faraldurinn gengi yfir landið. Hvernig ætti að virkja þjóðina aftur í slíkar lokanir og fjöldatakmarkanir ef ekki væri staðið við gefin loforð núna.
Vertarnir niður í bæ benda réttilega á að fáranlegt sé að miða við fordæmalaust síðastliðið ár þegar staðirnir voru lokaðir í sex mánuði og opnir með miklum takmörkunum þess á milli. Þegar fólk hittist varla heldur í heimahúsum vegna sóttvarna. Auðvitað var mun minna um tilkynnt ofbeldi og nauðganir. Þar sem enginn hittist, þar gerist ekkert.
Í fyrra á 17. júní máttu 500 einstaklingar koma saman. Núna eru þeir 300. Samt er stefnt að losun allra takmarkana í mánaðarlok. Yeah right! Verður gaman að sjá það verða að veruleika.