Dreggjar banns og takmarkana

Nú þegar bólusetning fer að ná mörkum hjarðónæmis, þá er engu líkara en að sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra vilji ekki sleppa takinu á fjöldatakmörkunum og bönnum. Losa beislið af löndum sínum og hleypa okkur frjálsum inn í hrímkalt sumarið.

Mikið held ég að þau langi til að draga allt á langinn fram á haust. Bara svo þau geti líka haft allar samkomur í júlí og ágúst af djammþyrstum Íslendingum. Kótilettuna, Þjóðhátíð, Gaypride og Menningarnótt.

Fiskidagurinn var sleginn út af borðinu af Samherja sem vill ekki splæsa sporði ofan í vanþakkláta Íslendinga sem skilja ekki viðskipti við aðrar þjóðir. Að þar þurfi að greiða mútur og svíkja undan skatti. Hirða svo arðinn af þjóðinni og fara með til Íslands.

Enn þarf að bera grímur í strætó og einhverju fleira. Veit það ekki. Hef samt séð strætóbílstjóra horfa í gegnum fingur sér og hleypa grímulausum inn í vagninn. Farþegum er fyrirgefin gleymskan.

Fólk nennir þessu varla mikið lengur. Finnst nóg komið af þessum boðum og bönnum. Sérstaklega þar sem að hjarðónæmið er farið að kikka inn og svo stutt er í að allar takmarkanir hverfi.

Sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra verða bara að eiga það við sig sjálf ef þau munu sakna þess að fá að hafa vit fyrir þjóðinni og setja þeim boð og bönn.

Færðu inn athugasemd