Hvað ætli að það séu margar nefndir að störfum í landinu um þessar mundir? Þúsund og eitthvað bara skipaðar af Alþingi. Svo úrskurðarnefndir um alla skapaða hluti, skipaðar reiðum, litlum lögfræðingum úr stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins. Loks eftirlitsnefndir yfir öllum sköpuðum hlutum, skipaðar flokksgæðingum fjórflokksins.
Svona eins og þessi sem fylgist með lögreglunni og skammar þegar þau hósta í átt að flokknum eða meðlimum hans sbr. Ásmundarsalarmálið. Lögreglumennirnir skammaðir fyrir að hafa komið auga á framapotara flokksins í veislunni og nefnt það í búkvélarnar sínar. Bjarni Ben. fær hinsvegar ekki svo mikið sem sekt fyrir að brjóta sóttvarnarreglur.
Fjölmiðlanefnd vakir yfir öllum eins og haukur, stofnar svo eigin fjölmiðil og kallar hann Fjórða valdið og með því rekur löngutöng framan í gjörvalla blaðamannastéttina. „Við gerum það sem okkur sýnist en þið fáið aðeins að gera það sem við leyfum“. Félagi Napóleón enn og aftur.
Stundum finnst mér eins og að nefndir séu býsna einsleitar. Skipaðar fólki úr sömu fjórum flokkunum og þá aðallega lögfræðimenntuðu fólki sem vantar eitthvað að gera að námi loknu og fær þarna inni þar til eitthvað betra býðst. Einu kröfurnar eru að geta barið saman neitunarbréf með smá rökum og tilvísanir í dómafordæmi og lagabálka. Í sem fæstum orðum að blása reyk upp í rassgatið á kærendum og draga úr þeim kjarkinn.
Leggjum niður allar nefndir og ráð. Getum sennilega greitt upp fjárlagahalla veirunnar, greitt öldruðum og öryrkjum mannsæmandi lífeyrir og átt einhverjar krónur eftir á einu kjörtímabili.