Asninn sem ég er, gerðist virkur í athugasemdum um brottrekinn brekkusöngvara sem er talinn með óeðlilegan smekk fyrir grunn- og framhaldsskólastúlkum sem hafa sótt tónleika hans síðustu fimmtán árin.
Tveir hópar kvenna tóku hann niður um leið og ljóst var að hann myndi troða upp á árlegri sukkhátíð suður af landinu. Þótti þeim nóg komið og kröfðust þess að hann myndi sitja af sér hátíðina í ár og birtu 32 frásagnir á TikTok máli sínu til stuðnings. Nefndin afboðaði, mér og mörgum öðrum til mikillar undrunar.
Hefði ekki fyrir fram trúað að svo yrði. Kannski er ný kynslóð tekin við kyndlinum sem vill draga úr megni hrútalykt hátíðarinnar í gegnum tíðina. Almannarómur segir að leit sé hafin af konu til að stýra brekkusöngnum. Skásta tryggingin fyrir að gamlar áreynslu-, áreitnis- eða nauðgunarsögur verði ekki dregnar upp á yfirborðið.
Í leiðinni losnaði nefndin við gæslustjórann og hans lið. Gaur sem mótmælti meðferðinni á söngvaranum og sagði þvi starfi sínu lausu og tók einhverja skoðanabræður sína með sér. Gott og blessað! Verður þá hægt að skipa alvöru gæslulið sem tekur alvarlega þá skyldu sína að vernda alla hátíðargesti. Sama hvers kyns þau eru.
Flest af því liði sem ég hef verið að rífast við á athugasemdakerfunum dregur fram rökin að dómstóll götunnar megi ekki dæma manninn, heldur sé hann saklaus uns sekt sé sönnuð fyrir þar til bærum dómstólum sem hafa brugðist fórnarlömbum kynferðisofbeldis aftur og aftur. Leitt að þurfa að tilkynna þessu liði sem enn trúir á jólasveininn að þeir tímar eru liðnir.
Dómstólar landsins vilja lítið sem ekkert gera svo að fólkið verður að taka málin í sínar eigin hendur á samskiptamiðlum netsins. Öfgar og AGN hafa safnað saman þessum frásögnum síðustu tvö ár frá óskyldum aðilum. Lengi hefur verið vitað að ekki væri æskilegt að ráða téðan gítargaulara á samkomur unglinga sökum sókn hans í að dansa við og fara í sleik við barnungar stelpur á þessum viðburðum.
Þangað til lögregla og dómstólar landsins hysja upp um sig buxurnar og fara að hlusta á fórnarlömb áreitis og kynferðisofbeldis, þá verður landslagið svona. Menn teknir reglulega niður á netinu fyrir sóðaskap sinn í gegnum tíðina svo þeir haldi ekki bara áfram á sömu braut óáreittir.
Hið minnsta vita unglingsstúlkur núna hvaða mann þessi reðurguð hefur að geyma og geta varað sig á honum. Það er eitthvað.