Þess vegna!

Gerðist í eldgömlum og úr sér gengnum Irisbus strætisvagni með númerinu EF – 930.

Ég spotta laust sæti aftast í vagninum og held þangað. Um leið og ég geri mig líklegan til að setjast og koma bakpokanum fyrir, þá botnar bílstjórinn bíldrusluna með þeim afleiðingum að ég flýg í vegginn aftast og missi bæði símann minn og bakbokann. Rétt næ að halda mér á fótum með því að krækja utan um eina stöngina. Hrópa um leið „helvítis fíflið þitt“ að bílstjóranum, enda ekki fyrsta skipti sem ég hef ferðast með þessum fýlupoka, durg og dóna.

Lætur farþegana alltaf ganga að vagninum. Stöðvar langt fyrir aftan eða framan farþegahópinn svo við þurfum að ganga smá spöl að vagninum. Býður aldrei góðan daginn. Og gefur duglega í svo við fáum nú örugglega smá flugferð áður en við setjumst.

Þetta er ástæðan fyrir því að bara furðufuglar eins og ég nenna að ferðast með strætó. Dóna- og durgsleg hegðun bílstjóra og úr sér gengnir vagnar sem ættu fyrir löngu að vera búnir að fá kærkomna hvíld.

Það er engu líkara en að allir séu að bíða eftir þessari blessaðri Borgarlínu sem mun sennilega seint eða aldrei koma, og ef þá, í mjög útvatnaðri mynd. Á meðan mega vagnar Strætó grotna niður og æ vonlausari bílstjórar stýra þeim.

Myndi kaupa mér bíl strax á morgun ef ég ætti einhvern aur. En þangað til ég vinn þann stóra, neyðist ég víst til að ferðast með Strætó og leyfa bílstjórum eins og þessum ulla á mig og niðurlægja.

Færðu inn athugasemd