Læknisviðtal síðastliðinn fimmtudag í Glæsibæ. Nýtt hús. Aldrei farið þar inn áður. Mættur tímanlega. Allar útgönguleiðir kannaðar áður en ég hætti mér inn. Brunastigar staðfestir. Þá fyrst stigið inn í lyftu upp á þriðju hæð til að mæta örlögum mínum.
Sama ferlið í strætó. Sest sem fjærst öllum öðrum farþegum. Aldrei við hliðina eða fyrir framan eða aftan við einhvern. Alltaf bil á milli. Og frekar sest í sæti við ganginn frekar en gluggann.
Gangandi vegfarandi mætir mér hægra meginn gangstígarins. Ég fer í kerfi. Færi mig kurteisislega til vinstri. Forðast átök eins og heitan eldinn. Auðvitað ætti ég að skalla viðkomandi í stað þess að víkja af leið.
Ekkert af þessu er í lagi. En svona er nú einu sinni blessuð félagsfælnin.