Síendurtekinn sirkus sóttvarnalæknis er orðinn ansi þreyttur. Hvernig væri að skipta um plötu á fóninum. Leika onnur lög en í síðustu þremur teitum. Prófa eitthvað nýtt? Gestirnir þrá að heyra eitthvað annað en lög um þunglyndi og leiðindi. Takmarkanir, boð og bönn.
Til dæmis hresst lag um að fyrir bólusetta sé veiran orðin að umgangspest sem sendir mjög fá okkar upp á spítala. Okkur var lofað hjarðónæmi eftir að hafa hangið í röð við Laugardalshöll eftir stungu fyrr í sumar. Flest okkar tvisvar sinnum. Á nú að svíkja það?
Eigum við bara enn einu sinni að beygja okkur betur og taka það í ósmurt rxxxxxxxð eftir að hafa gengið til góðs síðustu þrjú skipti? Eftir blindna hlýðni við yfirvöld aftur og aftur og aftur án þess að fá nokkuð í staðinn nema fáeinar vikur af frelsi sem er svo umsvifalaust kippt frá okkur. Og það rétt fyrir mestu ferðahelgi ársins. Þjóðhátíð í Eyjum og fjölda góðra viðburða í kringum landið. Svo ekki sé talað um gleðigöngu, marathon og menningarnótt í ágúst.
Ég segi NEI. Samstaða mín nær ekki lengra. Látum af þessari hræðslu síðustu sextán mánaða og finnum nýjan og kröftugri takt. Látum okkur vaxa pung og hættum að eltast við tölfræði smitaðra og litakóða. Sýnum smá djörfung og hugrekki. Gefum skít í veiruna og höldum áfram með líf okkar án ótta.
Til hvers erum við líka að loka öllu innanlands með galopin landamærin? Svona svipað og að sækja okkur vatn með götóttri skjóðu. Gjörsamlega tilgangslaust. En þetta vita embætti og stjórnvöld. Verða bara að fá að láta okkur hoppa einu sinni enn eftir sínu höfði. Stjórna okkur. Skemma gleðina.
Nei takk! Við nennum ekki lengur að hanga í þessu sveitta teiti þar sem ekkert má og allt er bannað undir yfirskyni veiru sem er orðin lítið annað en umgangspest í æðum bólusettrar þjóðar.
Allt tal um að veiran hverfi ekki endanlega nema að allt mannkyn hafi verið bólusett er hljóm eitt. Það mun aldrei gerast. Til þess eru vestræn ríki of nísk og gráðug og hin ríkin of fátæk. Veiran mun því alltaf vera til staðar í einhverri mynd rétt eins og Ebola í Afríku.
Vitaskuld eigum við að iðka einstaklings sóttvarnir áfram með handþvotti, spritti og grímum. Passa sérstaklega upp á eldra fólk og aðila með undirliggjandi sjúkdóma. Nota dómgreindina. Meta aðstæður út frá mögulegri hættu á smiti.
En hættum alls ekki að lifa og njóta. Einhver sagði eitt sinn: „If you’re going through hell, keep going.“ Það er nákvæmlega það sem við eigum að gera einmitt núna. Vaða óhrædd í gegnum eldinn í átt að ljósinu við enda ganganna.