Illur grunur

Frasar stjórnvalda eins og „hlýðum Víði“ og „við erum öll almannavarnir“ eru orðnir svo útvatnaðir og þreyttir að það hálfa væri nóg. Öll þessi þjónkun landans við minnisblöð eins embættismanns er beinlínis orðin hættuleg. Á einn maður að ráða til eilífðar hvort við sitjum eða stöndum? Og það eftir að við flest erum orðin fullbólusett!

Stjórnólfur þessi fékk nett frekjukast eftir að stjórnvöld voguðu sér að setja á eins metra fjarlægðarmörk í stað þeirra tveggja sem voru í minnisblaði hans. Bæði hann og einhver smitsjúkdómalæknisdurgur spá takmörkunum næstu árin vegna veiru sem er mjög líklega orðin ekkert annað en umgangspest í æðum bólusettra.

Ég vil fá útlistað nákvæmlega hvaða bóluefni rennur um æðar smitaðra. Hversu hörð einkennin eru eftir bóluefni. Hverjir leggjast helst inn á spítala. Hef nefnilega illan grun um að Jansen / Johnson og Johnson og Aztrazeneca eigi vinninginn en það megi bara ekki tala um það. Enda sýnir það sig að aukasprauta Jansenþega í ágúst mun verða Pfizer. Jansen og Aztrazeneca eru drasl. Hefðum betur einungis notað Pfizer og Moderna eins og Danir gerðu.

En það er víst lítil von að við fáum slíkar upplýsingar. Því það má ekki mismuna. Við erum öll í þessu saman. Eh, nei! Við Pfizer og Moderna fólkið sættum okkur ekki við takmarkanir sem ættu kannski helst að beinast að öðrum en okkur. Ef satt reynist eiga þau sem fengu önnur og síðri lyf heimtingu á tvöföldum skammti af Pfizer eða Moderna í sárabætur. Svo megi ná alvöru hjarðónæmi meðal þjóðarinnar.

Færðu inn athugasemd