Ég geri mér grein fyrir að bólusetningar eiga ekki að lækna allt heldur að draga úr möguleika á smitum og draga úr einkennum þeirra sem smitast. Rétt eins og flensusprautur hafa gert síðustu áratugi.
Eins er farið með bólusetningar gegn Covid-19. Faraldurinn er sennilega orðinn að flensu í æðum flestra og ætti að vera sinnt sem slíkum. Klárum að bólusetja restina af þjóðinni og gefum aukaskammta til þeirra sem hafa bara fengið tvo.
Auðvitað eigum við áfram að sinna eigin sóttvörnum af elju og vernda viðkvæma hópa og aldraða af kostgæfni. Dæla auknu fjármagni í spítala landsins svo þau geti mætt þeim sem veikjast alvarlega með mun stærri bráðamóttöku.
En látum af þessum lokunum og takmörkunum sem tíðkuðust fyrir bóluefnin. Hættum þessum eltingarleik við tölur um smitaða, í og úr sóttkví, einangrun og gjörgæslu. Lítum á óværuna eins og hverja aðra kvefpest og höldum áfram með lífið án skimunar, tölfræði og almennra leiðinda.
Við erum að mestu bólusett! Hættum þessari varkárni, takmörkunum og lokunum sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra! En það er auðvitað borin von fyrir kosningar. Yfirvöld þora engu að breyta síðustu vikurnar.