Síðustu tvær eða þrjár vikur hef ég meðvitað látið vera að tjá mig í athugasemdakerfum. Í hvert skipti sem mig hefur klæjað í fingurgómana, hef ég í staðinn gripið penna og skrifblokk og látið vaða. Og það hefur virkað vel. Orðin rata á pappír í stað netsins.
Vakna mun sáttari daginn eftir þess vitandi að ég lét ekki ginna mig út í algjörlega gagnlausa umræðu um ekki neitt sem skiptir nokkru máli. Að tjá sig á netinu er eins og að tala við krepptan hnefa.
Að rífast við rasshausa, apaheila og þverhausa í athugasemdakerfum netmiðla er svo mikil sóun á tíma að það hálfa væri nóg. Bróðurpartur heillar viku sumarleyfis míns fór í að munnhöggvast við typpalinga á netinu sem skildu ekki af hverju viss veðurguð fengi ekki að sjá um brekkusöng á Þjóðhátíð sem ekkert varð að. Algjör sóun á annars góðu fríi.
Sést best á öllum viðbjóðnum sem hefur lent á fórnarlömbum og öðrum sem hafa bent á þöggunartilburði KSÍ. Formaður þess hefur nú þegar sagt af sér, en af hverju ekki öll stjórnin! Á typpamenningin bara að fá að halda áfram. Eiga strákarnir okkar bara áfram að fá að vaða yfir stúlkur með klofgripi og hálstaki ef þær vilja ekki þýðast þá?