Öll mín starfsár á vinnumarkaði hef ég unnið í opnum rýmum. Og þau eru loksins að detta í tísku hérlendis einmitt núna með kröfum opinbers- og einkareksturs um minna húsnæði og færri fermetra fyrir hvern starfsmann. Skilrúm í stað veggja. Opnir básar í stað lokaðra skrifstofa.
Verði ykkur að því! Lítið fjör er að starfa í fuglabjargi. Hvað þá við þjóðbraut blaðrandi samstarfsfólks. Eini mögulegi flóttinn eru þráðlaus heyrnatól og endalaus hlaðvörp á netinu. Eða hverfa inn í sjálfan sig og eigin hugsanir. Loka hlustunum.
Verst er þó allt þetta lið sem hangir á öxlunum á þér. Skoðandi hvað þú ert að gera á skrifborðinu og í tölvunni. Eins og því komi það eittvað við.
Opin rými eru þó ekki alvond. Þú losnar við alla hurðaskellina.