Hvar ertu búin að vera?

„Hvar ertu búin að vera?“ Hvar ertu búin að vera?“ „Hvar ertu búin að vera?“ öskraði miðaldra sonur í stussy fötum með hálstattoo á aldraða móður sína með göngugrind eftir að hún hafði klárað rúnt sinn í gegnum grænmetisdeildina inn í Bónus í Holtagörðum. Hélt því ranglega fram að sú gamla hefði verið týnd í hálftíma meðan hann hafi verslað inn í búð.

Rak hana svo áfram í gegnum búðina með hótunum og öskrum. Þegar sú gamla spurði náðarsamlegast um fisk svaraði sonurinn að það væri enginn fiskur til og rak hana enn hraðar að kassanum þrátt fyrir ferskan og frosinn fisk sem var í boði inn í kæli og í frysti.

Þegar þarna var komið bullsauð á mér og ég var tilbúinn í átök við þetta gerpi. Hver kemur svona fram við móður sína! En auminginn ég hætti við að láta í mér heyra af virðingu við gömlu konuna. Hún er sennilega orðin vön svona framkomu af hendi þessa sonar síns. Vonandi á hún fleiri afkvæmi sem koma betur fram við hana.

En ef ég hitti þau mæðgin aftur í Bónus fær sonurinn hnefasamloku að gjöf frá mér. Sú gamla verður bara að horfa upp á það. Svona á ekki að koma fram við aldraða foreldra!

Ekki að ég sé einhver fullkominn sonur. Ég reyni þó að gera mitt að minnsta kosti tvisvar í viku og alls ekki að reka eftir móður minni meðan hún verslar.

Færðu inn athugasemd