Tröllólfur stelur jólunum…aftur!

Skröggólfur og er að gíra sig upp í að aflýsa jólunum með hertari aðgerðum og almennum leiðindum landsmönnum til mikillar gleði. Hann viðurkennir þó að hafa misst salinn og að samstaðan sé ekki eins góð og áður. Jafnvel ríkisstjórnin er orðin hundleið á að kóa með honum og vill bara að peningarnir haldi áfram að flæða. Hætta þessum leiðinda fjöldatakmörkunum og hólfaskiptingu sem engum tilgangi þjónar til lengdar.

En nei, Sóttólfur hafði af okkur sumarlokin og ætlar svo sannarlega að hafa af okkur hátíðirnar líka. Hér verða engin jólahlaðborð eða tónleikar. En kannski líka vegna þess að fólk nennir ekki lengur að nota grímur í mannþröng eða þvo sér um hendurnar og spritta. Er uppi í handarkrikum hvers annars í eilífum sleik.

Sjálfur nota ég alltaf grímu í strætó. Sérstaklega í lengri ferðum. Hinir farþegarnir horfa á mig með fyrirlitningu og hósta svo kæruleysislega út í loftið. Persónulegar sóttvarnir eru lykilinn að því að halda veirunni niðri. Ekki einhverjar fjöldatakmarkanir, smalanir á fólki milli sóttvarnarhólfa, sóttkvíar og lokunartímar skemmtistaða. Bara smá handþvottur, sprittun, grímunotkun í margmenni og láta vera að troða fingrunum í smettin á okkur.

Færðu inn athugasemd