Slæmar hugmyndir eru bráðsmitandi og berast hratt á milli manna rétt eins og Delta-afbrigðið. Lausaganga katta var bönnuð á Húsavík og núna ætlar Akureyri að gera slíkt hið sama. Og einhver helvítis Miðflokksmaður í bæjarstjórninni þar gerir ráð fyrir að fleiri bæir muni fylgja þeirra fordæmi.
Ætla rétt að vona að þessi ræpa rati ekki til Höfuðborgarsvæðisins. Næg eru nú leiðindin með öll boð og bönn yfirvalda vegna Covid-19. Engu líkara en að bannfíkn sé einnig smitandi. Að banna þurfi sem flest meðan þjóðin er móttækileg og hlýðin.
Bannsinnar ætla sér ekkert að leyfa okkur að hverfa aftur til fyrra lífs eftir að böndum hefur verið komið á veiruna. Barir fá ekki aftur næturopnun. Menningin fær að starfa eftir ströngum skilyrðum. Útihátíðir, bæjarhátíðir og 17. júní munu heyra sögunni til því að alltaf verða einhverjar takmarkanir í gildi út af hinu eða þessu en í raun bara eftir hentisemi stjórnvalda hverju sinni sem vilja ekki að fólk safnist saman.
Deili áhyggjum þeirra sem óttast að erfitt verði að fá aftur frelsið sem hefur verið tekið af okkur í Covid. Að „óheimilt“, „bannað“ og „má“ fái að hljóma löngu eftir að veiran hefur verið kveðin í kútinn. Það má ekki gerast! Sparka þarf duglega í punginn á þessum bannistum.