Barist gegn sorginni

Ég hefði getað skilað inn dánarfjárskýrslu í vor og lokið skiptum á dánarbúi föður míns þá en ákvað að bíða aðeins og sjá til. Og viti fólk. Á mig dundu allskyns kröfur um greiðslur en einnig einhverjar tilkynningar um inneignir. Þurfti að greiða úr þeim öllum áður en ég skilaði á síðustu stundu í lok október. Kæra, rífa kjaft og leggja fram gögn.

Einhverra hluta vegna þurfti ég að berjast og sjá til þess ekki yrði valtað yfir þann gamla í gröfinni. Veit að hann hefði viljað það frekar en ég gæfist strax upp og tæki það athugasemdarlaust í ósmurt rassgatið. Færi styttri leiðina. – Með þrjóskunni og þolinmæðinni sneri ég við kröfum upp á 200.000 í inneign upp á 240.000.

Geri mér grein fyrir að svona syrgði ég sennilega gamla fólið. Vann úr sorginni með krepptan hnefa á lofti og háan róm. Rétt eins og hann hefði gert. Hann hefði aldrei samþykkt uppgjöf. Síst af öllu frá mér.

Þvílíkur léttir að skila inn skýrslunni og klára málið. Rétt eins og þungu fargi hafi verið létt af herðum mér. Hefði samt viljað kaupa stein á gröf þess gamla, en það var víst eitthvað dræm stemning fyrir því meðal hluta erfingjanna. Virðast hafa gleymt því að sá gamli barðist sjálfur fyrir skaðabótum frá ríkinu fyrir að hafa verið sendur milli barnaheimila í æsku. – Kaupi því bara stein í vor fyrir eigin reikning.

Færðu inn athugasemd