Einbeittur vilji til að herða tökin

Eftir tæp tvö ár af því að ganga í takt við skipanir sóttvarnalæknis er kominn jarðvegur fyrir fleiri aðila til að koma sínum boðum og bönnum að. Beisla vilja þjóðarinnar betur. Höfum víst fengið að ganga laus allt of lengi.

Krár og skemmtistaðir fá seint eða aldrei aftur að hafa opið eftir miðnætti. Veiran og lögreglan hefur séð til þess. Yfirvöld vilja frekar eiga við ölvun landans í heimahúsum um miðjan nætur þar sem börn eru rænd svefni og öryggi heldur en að kljást við skrílinn niður í miðbæ.

Vínbúðum fer fækkandi og bráðum lokar sú eina fyrir gangandi vegfarendur niður í Austurstræti og opnar aftur út á Granda. Verður að vera á bíl til að kaupa áfengi í Reykjavík. Við í Laugardalnum og nágrenni getum étið skít. Fáum enga verslun nær okkur eftir að lokað var í Borgartúni. Þurfum að aka alla leið í Skeifuna eða Skútuvog eftir einhverju til að væta kverkarnar.

Klámsíu á að koma á með noktun rafrænna skilríkja. Þegar einhver slæðist inn á slíkar síður munu verða safnaðar upplýsingar sem verða svo notaðar gegn viðkomandi við hvert tækifæri í samskiptum við ríkið. Yfirskynið er að vernda þarf börnin fyrir ofbeldi og skrítnu kynlífi. Reyndin er fyrsta skref stjórnvalda til ritskoðunar og stjórnunar á hvað lýðurinn skoðar á netinu.

Kosningasvindl fékk grænt ljós þegar Alþingi samþykkti að seinni talningin skyldi gilda í Norðvesturkjördæmi. Vonandi slær Mannréttindadómstóll Evrópu á puttana á þessum bjánum og sýnir heiminum hverskonar bananalýðveldi er rekið á þessu skeri. Ekki það að stjórnvöld hérlendis hlusti á slíkar skammir.

Sjálfgræðgisflokkurinn fékk ekki að sýsla með heilbrigðismálin en fær í staðinn að einkavinavæða og/eða leggja niður ríkisháskóla og nokkrar stofnanir. Umhverfismál verða söltuð niður í skúffu og allar ár og sprænur virkjaðar undir yfirskyni orkuskipta.

Eina spurningin sem stendur eftir er hvort Willum Þór verði eins hlýðinn og Svandís gagnvart Þórólfi.

Færðu inn athugasemd