Þrír hópar berjast um völdin í íslensku samfélagi: Heilbrigðisstéttin og yfirvöld með sóttvarnalækni í fararbroddi, afneitunarsinnar sem neita bólusetningum og takmörkunum í skjóli frelsis og loks óþokkarnir sem ætla sér að nýta farsóttina til að þrengja að athafnafrelsi fólks um ókomna framtíð.
Löngu er orðið ljóst að þrjár bólusetningar og harðar aðgerðir duga ekki gegn nýjustu bylgjunni. Til þess er veiran orðin of smitandi og dreifð. Hertar aðgerðir munu bara fara í taugarnar á lýðnum. Sérstaklega eftir á þegar kemur í ljós að þær gerðu ekkert gagn. Fólk nennir þessu ekkert lengur.
Og það er merkilegt að öllu skuli skellt í lás rétt fyrir hátíðir landans eins og um verslunarmannahelgar og jól. Glaðar og langþreyttar sálir leyfðu sér að dansa á tónleikum í vikunni og lögreglan greip inn í. Hvers konar bjánasamfélag erum við að verða? Má ekkert lengur?
Þórólfur missti salinn fyrir löngu síðan. Þríbólusett fólk sem hefur viðhaft strangar persónulegar sóttvarnir síðastliðin tvö ár er að smitast. Veiran er komin um allt og takmarkanir duga ekki lengur til. Samt á að herða enn frekar og gera lífið leiðinlegra í stað þess að sætta sig við orðinn hlut. Persónulegar sóttvarnir eru síðasta vörnin. Eina vörnin sem eftir er. Förum varlega og pössum upp á hvort annað.